Færsluflokkur: Bloggar
16.4.2007 | 15:21
Langt um liðið
Ég hef ekki bloggað lengi lengi lengi, en nú skal ég örlítið stikla á stóru um hvað hefur verið að ganga á.
Núna síðasta laugardag kom hópur til okkar frá HB Granda. Allt gekk upp svona í stærstum dráttum, kvöldið byrjaði að vísu ekki vel, því þegar við ætluðum að ríða út á móti rútunum þá bilaðist hesturinn og fleygði mér og Árna af baki. Það fór því þannig að ég haltraði í veg fyrir rútuna en tveir riðu í veg fyrir hana. Eymundur tók fremri rútuna trausta taki og kastaði bílstjóranum út og brunaði svo í burtu. Þá fór ég í seinni rútuna og tilkynnti það að við hefðum orðið að ræna annari rútunni. Ég lét svo rútuna sem ég tók keyra beint inn í reiðhöll þar sem ég sleppti fólkinu lausu. Svo fimm mínútum síðar kom hin rútan með þvílíkum látum að annað eins hefur varla heyrst. Dagskráin gekk vel og allir voru ánægðir með matinn, þjónustuna og ballið á eftir og má þetta því teljast sem vel heppnað kvöld, þrátt fyrir helvítis ótemjuna sem kastaði mér af baki.
Föstudaginn langa voru svo tónleikar hjá okkur með Magna og Á móti sól, þar sem þeir spiluðu fyrir nánast húsfylli. Það mættu tæplega 1000 manns og gekk allt stóráfallalaust fyrir sig. Við höfðum fengið lánaðan Benz blæjubíl sem við fylltum af klaka og notuðum síðan sem bar. Það féll í mjög góðan jarðveg og held ég að ég sé bara nokkuð sáttur við útkomuna.
Fyrir hálfum mánuði var svo hér hópur frá 365 miðlum. Þau voru í óvissuferð sem endaði hér með mat og balli sem gekk alveg stórkostlega. Þannig ég held ég sé bara þónokkuð sáttur við lífið og tilveruna í dag.
Það eina sem er að ég er svo stirður og haltur eftir hestbaksflogið að það er varla neinu lagi líkt. Nema þá kannski einhverju lélegu lagi frá ónefndri innlendri hljómsveit sem við skulum ekki ræða frekar.
Bið að heilsa í bili, sumarið er að fara að detta inn, og ég þyrfti að vera duglegri að blogga, en maður fær yfirleitt aldrei nákvæmlega það sem maður vill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2007 | 15:25
Samkynhneigð - Eðlileg eða ekki?
Ég hef afskaplega gaman af því að ofureinfalda hlutina vegna þess að við eigum það til að gera úlfalda úr mýflugu úr svo mörgum málefnum. Og að vísu líka vegna þess að það fer í taugarnar á fólki. En sama hvað hver segir, þá er ofureinföldun á mörgum málefnum oft einfaldasta lausnin og ég hreinlega skil ekki af hverju allir geta ekki sæst á svona marga hluti.
Nú langar mig að taka dæmi. Fólk getur endalaust velt sér upp úr samkynhneigð. Það á að vera svakalega óeðlilegt að vera samkynhneigður einstaklingur og eins og staðan er í dag þarf enn að vera að berjast fyrir málefnum samkynhneigðra, eins og til dæmis með ættleiðingar, blóðgjafir og fleira. Við mismunum fólki sökum kynhneigðar þess, en hvers vegna gerum við það?
Nú er kynkvötin ein af frumþörfum mannskepnunnar. Auk þess höfum við nokkrar aðrar frumþarfir, en það er að sofa, borða og drekka.
Nú er afar breytilegt hvenær við sofum. Sumir vilja sofa lengi á morgnana, aðrir vilja vaka allar nætur og sofa á daginn, einhverjir eru svakalega morgunhressir á meðan fólk eins og ég er fyrst að komast í gang í kring um hádegi. Fólki virðist almennt vera sama um svefnvenjur annara, þetta er jú ein af frumþörfum okkar og það gera þetta allir. Bara misjafnt hvenær, hvernig og hversu lengi.
Við verðum líka að drekka, til að koma í veg fyrir að við deyjum. En hvað við drekkum veltur alfarið á okkur. Við getum drukkið vatn, kaffi, mjólk, kók, jafnvel bjór. Það þykir ekkert óeðlilegt að fá sér kaffibolla á morgnana, eða á kvöldin, jafnvel um miðjan dag. Öll þurfum við að drekka og svona felstum er alveg sama hvað næsti maður er að drekka til að halda lífi, við drekkum eitthvað öll.
Við verðum öll að borða, af sömu ástæðu. Matur kemur í veg fyrir að við deyjum úr hungri. Öll höfum við misjafnan smekk á mat. Ég, til dæmis, borða ekki grænmeti og hef aldrei gert. Það þykja mörgum furðulegt, en enginn kippir sér upp við þetta. Ef ég kýs að borða ekki grænmeti, þá er það mitt val og flestir eru tilbúnir til að sætta sig við það. Þetta hefði þótt afar óeðlilegt í gamla daga, þegar við áttum varla ofan í okkur, þá hefði maður borðað það sem manni væri rétt. En í dag, þá getum við flest leyft okkur að velja hvað við borðum og hvenær. Það sem mér finnst gott, finnst kannski nágranna mínum hreinn viðbjóður, en við lifum í sátt og samlyndi á meðan ég er ekki að bjóða honum í mat.
Þá komum við að kynkvötinni, sem er eins og allt hér fyrir ofan, frumþörf. Það er mismunandi hvað hver kýs. Sumir strákar vilja hávaxnar stelpur, aðrir strákar vilja lágvaxnar, sumir vilja feitar á meðan aðrir vilja grannar. Okkur þykir fullkomlega eðlilegt að fólk fái að velja hvernig það svalar þessari þörf sjálft, á meðan það velur ekki aðila af sama kyni. En hvers vegna erum við að hengja okkur á eina frumþörf og reyna að búa til einhverja reglu í sambandi við hana, á meðan allar aðrar frumþarfir má svala á þann hátt sem hver og einn kýs að gera? Af hverju þykir eðlilegt að borða skötu á Þorláksmessu á meðan það þykir óeðlilegt að heillast af aðila af sama kyni?
Ókei, nýtt dæmi. Nú eru jólin ný afstaðin. Við erum búin að sprengja flugelda og kveikja í jólatrjám því til staðfestingar. Heima hjá mér er alltaf hamborgahryggur á jólunum. Heima hjá flestum sem ég þekki er alltaf hamborgahryggur á jólunum. Fyrir mér er hamborgahryggur á jólunum eina leiðin til að halda jól, en það er til geðsjúkt fólk sem vill borða rjúpur um jólin! Mér finnst rjúpur ógeðslegar og þá skiptir ekki máli þótt þetta fólk borði bara rjúpur heima hjá sér. Ónei, ef ég fengi að ráða þá væru hjónabönd milli einstaklinga sem borða rjúpur á jólunum bönnuð! Því næst myndi ég banna þeim að eignast börn, ég óska engu barni að alast upp hjá fólki sem borðar rjúpur á jólunum. Því næst myndi ég fá Gunnar í Krossinum til að halda sérstök afrjúpunarnámskeið, þar sem fólk sem borðar rjúpur á jólunum, getur komið og séð villu síns vegar og fært sig yfir á réttu brautina.
Nei, í alvöru, spáið bara aðeins í þessu. Þetta er ekkert flókið, af hverju verðum við að flækja allt svona?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.1.2007 | 18:49
Fjárhættuspil ólögleg
Mér finnst þetta alveg frábært. Nú er allt að verða vitlaust útaf einhverjum söfnunarkössum, sem eru sérhannaðir til að safna peningum af okkur, sauðsvörtum almúganum, til að hjálpa þeim er minna mega sín. Þá má nefna að SÁÁ, Rauði Krossinn, Landsbjörg og Háskóli Íslands fjármagna öll starfsemi sína af einhverjum hluta með rekstri slíkra söfnunarkassa. Og ég segi söfnunarkassar því spilakassar gæti gefið ykkur þá hugmynd að hér sé um fjárhættuspil að ræða, en svo er ekki, vegna þess að lögum sakmkvæmt er ólöglegt að spila fjárhættuspil.
En hvað er þá til ráða? Ég legg til að við beitum sömu aðferð á spilafíkla og við notum á þá sem háðir eru vímu-og fíkniefnum. Gerum þetta bara almennilega ólöglegt, og fangelsum svo alla spilafíkla. Það er þeim sjálfum fyrir bestu, þar komast þeir í það minnsta ekki í spilakassa.
Einföld lausn, gerum bara þetta heilbrigðisvandamál að lögreglumáli og ég er viss um að Björn Bjarnason geti hrist úr erminni eitthvað auka fjármagn fyrir lögregluna til að vinna bug á þessum sívaxandi vanda. Var ekki mikið í fréttum um að heilbrigðisstarfsmenn væru ekki nógu margir? Held að þarna gætum við hugsanlega slegið tvær flugur í einu höggi.
![]() |
Samþykkt að skipa starfshóp til að fara yfir málefni spilasala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2007 | 14:22
Egils á erlendri grundu
Egils fær prik frá mér í dag, þar sem þeir eru að hefja útflutning á Egils Premium. Ég tek þessu fagnandi, enda stoltur íslendingur og hefur mér lengi þótt íslenski bjórinn bera af þeim erlendu. Vona ég að þetta verði til þess að fleiri fyrirtæki hefji útflutning á sínum veigum til fjarlægra landa. Ekkert sem gæti fyllt mann meira stolti en að vera staddur erlendis, en geta pantað sér íslenskt öl á krám ytra.
Að öðru, ég fór á tónleika með sinfóníuhljómsveit íslands sl. fimmtudag. Mér hefur lengi þótt við hæfi að byrja árið á menningarlegu nótunum, þá er maður búinn með það og getur eytt restinni af árinu í eitthvað annað. Tónleikarnir voru tær snilld, þessir nýárstónleikar sinfóníuhljómsveitarinnar eru yfirleitt með léttara sniði en gengur og gerist, og mikið sprell í gangi. Ég geng allavega yfirleitt mjög sáttur út.
Búinn að eyða sl. kvöldum í að horfa á Monty Python, aðallega vegna snilldar auglýsinga Kaupþings með John Cleese í aðalhlutverki.
Nýr matseðill Tony's County er tilbúinn og verður settur inná vefsvæði okkar, tonys.is, á næstu dögum.
![]() |
Egils Premium bjór fluttur til Þýskalands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 03:53
Basshunter, áramót og fyrsta bloggfærsla nýs árs
Ég hef ekki bloggað í orðið mörg ár, en nýtt ár boðar nýja tíma og langar mig til þess að reyna að koma einhverju af því sem er að gerast í kring um mig á rit. En ég ætlaði að byrja að tíunda þá áramótagleði sem ég upplifði nú um áramótin.
Þannig er mál með vexti að ég, ásamt fríðu (og ófríðu) förunauti fórum í hópferð til Akureyrar. Við lögðum af stað á laugardeginum og gekk aksturinn bara vel. Fyrir utan þegar ég fæ símtal þar sem mér er bent á grein á mbl.is þar sem farið var ófögrum orðum um veitingastaðinn minn. Þar var máluð upp ljót mynd af okkur sem komum að honum, við höfðum svipt sunnlendingum þeim forréttindum að fá að sjá "heimsfrægan" plötusnúð troða upp í Ölfushöllinni. Þetta atvikaðist ekki alveg svona, vegna þess að þá hafði eigandi Hallarinnar gefið þeim Flass mönnum grænt ljós á að troða þar upp, en ekki hafði mikið verið talað við okkur svo við töldum okkur standa stikkfrí fyrir utan þetta allt saman. Við ætluðum bara að leyfa þeim að tralla inní Höll, svo fremri sem þeir héldu sig fyrir utan veitingastaðinn. Allavega, í þessari blessuðu frétt voru fleiri rangfærslur, sem ég nenni ekki að fara út í að leiðrétta að svo stöddu, enda er ég að skrifa um áramótin.
Við vorum komin á leiðarenda á laugardagskvöldinu, og hófst þá strax fyrir-áramótadjamm. Við byrjuðum á Capone, aðal skemmtistaðnum í bænum, og þegar líða fór á nóttina skelltum við okkur í partý. Þaðan var okkur svo boðið á þennan heimsfræga Basshunter á Sjallanum. Ég átti ekki til orð. Maðurinn labbar sér upp á svið og byrjar eitthvað að glenna sig framan í allar þessar 50 hræður sem voru inni á Sjallanum og ekki nóg með það heldur var hann ekki beint að syngja lögin sín. Fyrir aftan hann stóð DJ Frigor og ýtti á play á geisladiski og Basshunterinn sjálfur hljóp um sviðið og þóttist syngja. Mér þótti hálf dónalegt að springa úr hlátri þarna á miðju dansgólfinu svo ég hleyp út, með tárin í augunum, og dó úr hlátri þegar ég var kominn úr augsýn. Þegar ég kom aftur inn á staðinn fór ég beint á barinn, pikkaði í næsta barþjón og bað um drykk sem gæti gert þetta skemmtilegt. Barþjónninn horfði á mig og spurði "Hvað viltu?" og ég svaraði "Eitthvað sem getur gert þetta skemmtilegt". Þá fékk ég svona lúkk og stelpan á barnum tjáir mér það að hún geti ekki selt mér neitt nema ég segi henni hvað ég vilji. Þá pikka ég í næsta barþjón, í von um betri þjónustu, en þar var sama sagan. Á endanum kenndi ég henni að blanda handa mér skot þar sem uppistaðan var brennivín og jagermeister og pantaði stóran bjór í leiðinni, en þegar ég sný mér við er liðið sem ég kom með inn á leiðinni út. Ég skelli í mig skotinu og fer með þeim niður. Þá upphófst leit að plastglasi svo ég gæti tekið með mér bjórinn út. Eftir mikla leit fékk ég að lokum pappaglas, en þá var fylkingin sem ég kom með öll farin. Ég tek þá leigara niður á Capone og hélt þar áfram að drekka þar til þeir lokuðu. Þegar ég labba út af Capone eru allir komnir uppí bíla, en ekkert pláss fyrir mig né Birgi inní téðum bílum. Við fáum loforð um að leigubíll verði sendur á eftir okkur svo brunar fólkið í burtu. Eftir að hafa beðið í margar mínútur förum við að horfa í kring um okkur. Ekkert bólaði á leigubílnum svo við förum að velta fyrir okkur öðrum leiðum til að komast heim. Við fundum gamlan Lapplander jeppa sem við fyrstu sýn leit út fyrir að vera ágætis kostur. Þegar við vorum búnir að opna á honum hurðina og finna lykla kemur lögreglan aðsvífandi. Ég hljóp út á götu og tilkynnti þeim það að við ætluðum að stela þessum bíl og fara heim. Þeir gætu annað hvort horft upp á okkur gera það eða stoppað okkur. Lögreglan tjáði mér það að þeir hefðu ekki tíma fyrir neitt svoleiðis og keyrðu í burtu. Við þetta hringdi Eymundur í okkur og spurði hvar við værum. Eftir að hafa hlustað á reiðilestur um að ekki mætti stela bílum á Akureyri, sama hvort löggan ætlaði að stoppa okkur eða ekki, var sendur á okkur leigubíll. Meðan við biðum eftir leigaranum héldum við áfram að gæla við þá hugmynd að taka Lapplanderinn en leigarinn var ekki lengi að koma og skutlaði okkur heim. Á leiðinni heim hringdi ég svo í lögregluna á Akureyri og lét í ljós óánægju mína með lögreglumenn bæjarins. Ég stóð í þeirri trú að lögreglan ætti að koma í veg fyrir glæpi, en löggustrákurinn sem svaraði var ekki alveg á sömu skoðun og ég. Þegar heim var komið héldum við áfram að drekka þar til ég varð rænulaus af drykkju, líklegast um 10 leytið um morguninn og svo svaf ég á mínu græna eyra þar til ég vaknaði um 1 á gamlársdag.
Engin þynnka gerði vart við sig á þessum síðasta degi ársins, líklegast sökum þess að ég var ennþá ölvaður. Ég tók því þá ákvörðun að viðhalda því stigi til að koma í veg fyrir þynnku. Um kvöldið var svo öllum boðið í mat á Capone, þar sem eldað var ofan í okkur dýrindis svín, við horfðum á áramótaskaupið á breiðtjaldi og héldum svo svakalega flugeldasýningu fyrir utan. Klukkan sló miðnætti og djammið hélt áfram. Birgir félagi minn þóttist ekki vera orðinn fullur enn svo ég tók það að mér að bæta úr því. Þótti mér við hæfi að gera það með skotum, fyrst það voru nú áramót og allir að skjóta flugeldum hvort eð er. Það síðasta sem ég man greinilega eftir var þegar Kjartan, veitingastjóri Capone, kom með kampavín á borðið til okkar og skálaði með okkur. Eftir það man ég óljóst eftir að hafa farið hamförum á dansgólfinu, við misjafnar undirtektir annara gesta, og svo fékk ég mér búkollu á nætursölunni. Ég man óljóst eftir að Eymundur hafi svindlað okkur í leigubílaröðinni, með því að fara bara fremst í röðina og bíða þar eftir næsta bíl. Það virtist enginn kippa sér upp við þetta og því þurftum við aðeins að bíða í um hálfa mínútu eftir leigara. Þá kom hún Sigríður leigubílstýra og skutlaði okkur heim. Ég er ekki alveg klár á hvað átti sér stað eftir það en ég vakna allavega heill á húfi á nýársdag, eftir skemmtilega djammferð til Akureyrar.
Ég held að þetta sé komið gott í fyrsta blogginu, ég skal reyna að hafa næstu blogg styttri svo fólk endist í að lesa þau öll. Það sem mér fannst standa upp úr þessi áramót var vafalaust heimsfrægi plötusnúðurinn Basshunter, sem fór á kostum fyrir tómt dansgólf á Sjallanum. Gísli, framkvæmdastjóri Capone fær prik fyrir að bjóða okkur, löggan á Akureyri fær mínus fyrir aðgerðarleysi gagnvart ölvuðu fólki.
Gleðilegt nýtt ár!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)