4.1.2007 | 03:53
Basshunter, áramót og fyrsta bloggfærsla nýs árs
Ég hef ekki bloggað í orðið mörg ár, en nýtt ár boðar nýja tíma og langar mig til þess að reyna að koma einhverju af því sem er að gerast í kring um mig á rit. En ég ætlaði að byrja að tíunda þá áramótagleði sem ég upplifði nú um áramótin.
Þannig er mál með vexti að ég, ásamt fríðu (og ófríðu) förunauti fórum í hópferð til Akureyrar. Við lögðum af stað á laugardeginum og gekk aksturinn bara vel. Fyrir utan þegar ég fæ símtal þar sem mér er bent á grein á mbl.is þar sem farið var ófögrum orðum um veitingastaðinn minn. Þar var máluð upp ljót mynd af okkur sem komum að honum, við höfðum svipt sunnlendingum þeim forréttindum að fá að sjá "heimsfrægan" plötusnúð troða upp í Ölfushöllinni. Þetta atvikaðist ekki alveg svona, vegna þess að þá hafði eigandi Hallarinnar gefið þeim Flass mönnum grænt ljós á að troða þar upp, en ekki hafði mikið verið talað við okkur svo við töldum okkur standa stikkfrí fyrir utan þetta allt saman. Við ætluðum bara að leyfa þeim að tralla inní Höll, svo fremri sem þeir héldu sig fyrir utan veitingastaðinn. Allavega, í þessari blessuðu frétt voru fleiri rangfærslur, sem ég nenni ekki að fara út í að leiðrétta að svo stöddu, enda er ég að skrifa um áramótin.
Við vorum komin á leiðarenda á laugardagskvöldinu, og hófst þá strax fyrir-áramótadjamm. Við byrjuðum á Capone, aðal skemmtistaðnum í bænum, og þegar líða fór á nóttina skelltum við okkur í partý. Þaðan var okkur svo boðið á þennan heimsfræga Basshunter á Sjallanum. Ég átti ekki til orð. Maðurinn labbar sér upp á svið og byrjar eitthvað að glenna sig framan í allar þessar 50 hræður sem voru inni á Sjallanum og ekki nóg með það heldur var hann ekki beint að syngja lögin sín. Fyrir aftan hann stóð DJ Frigor og ýtti á play á geisladiski og Basshunterinn sjálfur hljóp um sviðið og þóttist syngja. Mér þótti hálf dónalegt að springa úr hlátri þarna á miðju dansgólfinu svo ég hleyp út, með tárin í augunum, og dó úr hlátri þegar ég var kominn úr augsýn. Þegar ég kom aftur inn á staðinn fór ég beint á barinn, pikkaði í næsta barþjón og bað um drykk sem gæti gert þetta skemmtilegt. Barþjónninn horfði á mig og spurði "Hvað viltu?" og ég svaraði "Eitthvað sem getur gert þetta skemmtilegt". Þá fékk ég svona lúkk og stelpan á barnum tjáir mér það að hún geti ekki selt mér neitt nema ég segi henni hvað ég vilji. Þá pikka ég í næsta barþjón, í von um betri þjónustu, en þar var sama sagan. Á endanum kenndi ég henni að blanda handa mér skot þar sem uppistaðan var brennivín og jagermeister og pantaði stóran bjór í leiðinni, en þegar ég sný mér við er liðið sem ég kom með inn á leiðinni út. Ég skelli í mig skotinu og fer með þeim niður. Þá upphófst leit að plastglasi svo ég gæti tekið með mér bjórinn út. Eftir mikla leit fékk ég að lokum pappaglas, en þá var fylkingin sem ég kom með öll farin. Ég tek þá leigara niður á Capone og hélt þar áfram að drekka þar til þeir lokuðu. Þegar ég labba út af Capone eru allir komnir uppí bíla, en ekkert pláss fyrir mig né Birgi inní téðum bílum. Við fáum loforð um að leigubíll verði sendur á eftir okkur svo brunar fólkið í burtu. Eftir að hafa beðið í margar mínútur förum við að horfa í kring um okkur. Ekkert bólaði á leigubílnum svo við förum að velta fyrir okkur öðrum leiðum til að komast heim. Við fundum gamlan Lapplander jeppa sem við fyrstu sýn leit út fyrir að vera ágætis kostur. Þegar við vorum búnir að opna á honum hurðina og finna lykla kemur lögreglan aðsvífandi. Ég hljóp út á götu og tilkynnti þeim það að við ætluðum að stela þessum bíl og fara heim. Þeir gætu annað hvort horft upp á okkur gera það eða stoppað okkur. Lögreglan tjáði mér það að þeir hefðu ekki tíma fyrir neitt svoleiðis og keyrðu í burtu. Við þetta hringdi Eymundur í okkur og spurði hvar við værum. Eftir að hafa hlustað á reiðilestur um að ekki mætti stela bílum á Akureyri, sama hvort löggan ætlaði að stoppa okkur eða ekki, var sendur á okkur leigubíll. Meðan við biðum eftir leigaranum héldum við áfram að gæla við þá hugmynd að taka Lapplanderinn en leigarinn var ekki lengi að koma og skutlaði okkur heim. Á leiðinni heim hringdi ég svo í lögregluna á Akureyri og lét í ljós óánægju mína með lögreglumenn bæjarins. Ég stóð í þeirri trú að lögreglan ætti að koma í veg fyrir glæpi, en löggustrákurinn sem svaraði var ekki alveg á sömu skoðun og ég. Þegar heim var komið héldum við áfram að drekka þar til ég varð rænulaus af drykkju, líklegast um 10 leytið um morguninn og svo svaf ég á mínu græna eyra þar til ég vaknaði um 1 á gamlársdag.
Engin þynnka gerði vart við sig á þessum síðasta degi ársins, líklegast sökum þess að ég var ennþá ölvaður. Ég tók því þá ákvörðun að viðhalda því stigi til að koma í veg fyrir þynnku. Um kvöldið var svo öllum boðið í mat á Capone, þar sem eldað var ofan í okkur dýrindis svín, við horfðum á áramótaskaupið á breiðtjaldi og héldum svo svakalega flugeldasýningu fyrir utan. Klukkan sló miðnætti og djammið hélt áfram. Birgir félagi minn þóttist ekki vera orðinn fullur enn svo ég tók það að mér að bæta úr því. Þótti mér við hæfi að gera það með skotum, fyrst það voru nú áramót og allir að skjóta flugeldum hvort eð er. Það síðasta sem ég man greinilega eftir var þegar Kjartan, veitingastjóri Capone, kom með kampavín á borðið til okkar og skálaði með okkur. Eftir það man ég óljóst eftir að hafa farið hamförum á dansgólfinu, við misjafnar undirtektir annara gesta, og svo fékk ég mér búkollu á nætursölunni. Ég man óljóst eftir að Eymundur hafi svindlað okkur í leigubílaröðinni, með því að fara bara fremst í röðina og bíða þar eftir næsta bíl. Það virtist enginn kippa sér upp við þetta og því þurftum við aðeins að bíða í um hálfa mínútu eftir leigara. Þá kom hún Sigríður leigubílstýra og skutlaði okkur heim. Ég er ekki alveg klár á hvað átti sér stað eftir það en ég vakna allavega heill á húfi á nýársdag, eftir skemmtilega djammferð til Akureyrar.
Ég held að þetta sé komið gott í fyrsta blogginu, ég skal reyna að hafa næstu blogg styttri svo fólk endist í að lesa þau öll. Það sem mér fannst standa upp úr þessi áramót var vafalaust heimsfrægi plötusnúðurinn Basshunter, sem fór á kostum fyrir tómt dansgólf á Sjallanum. Gísli, framkvæmdastjóri Capone fær prik fyrir að bjóða okkur, löggan á Akureyri fær mínus fyrir aðgerðarleysi gagnvart ölvuðu fólki.
Gleðilegt nýtt ár!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning