17.10.2007 | 21:04
Já, ég var auðvitað búinn að gleyma...
... því að ég var með svona blogg. Þannig maður ætti kannski að henda einhverju örlitlu hingað inn. Mánudagar. Sl. tveir mánudagar hjá mér hafa endað með fylleríi. Sem er ekki frásögu færandi nema vegna þess hvernig það atvikaðist.
Núna fyrir rúmri viku síðan, á mánudegi, býður Gísli okkur Bigga og Jóa í mat. Við grípum með okkur bjór og skellum okkur til hans. Hann hafði hringt í mig fyrr um daginn og sagðist vera að fara í endajaxlatöku en vildi ekki fresta matarboðinu þannig að við mætum Gísla talsvert út úr heiminum í dyragættinni. Við tekur heimsklassa eldamennska af Gísla hálfu þar sem hann mauksauð fisk, brúnaði grænmeti og brenndi einhverja kökusúpu. Svo var það aðalrétturinn, kjúklingur-fastur-við-pönnu fyrir utan þetta smádrasl sem hann gleymdi í pottunum og/eða gleymdi að kveikja undir. Við sáum fljótt framá að við þyrftum meiri bjór svo það var sent eftir því. Við sáum svo fram á að við fengjum ekkert ætilegt að borða svo við laumuðumst til að panta okkur pitsu í Gísla nafni á meðan við vorum úti að reykja. Svo þegar við komum aftur inn héldum við áfram að fylgjast með Gísla fara hamförum inni í eldhúsi þar til að bjöllunni var hringt. Gísli fer til dyra, svo sjáum við hann bara hníga til gólfs þar sem hann emjaði um af hlátri. Við fengum þó pitsu í matinn og ég veit að Gísli tók kvittunina og á hann vafalaust eftir að ramma hana inn. Þarna vorum við Biggi og Jói orðnir örlítið kenndir svo við héldum rakleiðis niður í bæ og fengum okkur nokkra.
Svo koma nokkur fyllerí þarna á milli sem eru kannski ekki eins merkileg og ekki nenni ég að skrifa um stjórnmál hér þar sem það virðist ekki skipta nokkru máli hvað sauðsvartur almúginn segir, heldur eða kýs, nema ég og Biggi kíktum í bjór í fyrradag á, að mig minnir, Kaffibrennslunni. Þeir urðu svo nokkrir. Þar sem ekki má reykja inni á skemmtistöðum og kaffihúsum landsins þá urðum við að bregða okkur út í sígó af og til. Nema þegar við komum aftur inn í eitt skiptið voru einhverjir túristar búnir að teygja anga sína yfir á borðið okkar og létu fara vel um sig. Nema við vorum ekki par sáttir og settumst bara á borðið okkar og héldum áfram þar sem frá var horfið í drykkjunni. Það vildi bara svo skemmtilega til að þessir lúðar voru bara fínasta fólk, við fórum og sýndum þeim eina strippstaðinn sem eftir er í Reykjavík, þar sem við héldum áfram að drekka en af þeim sökum var ég þunnur þar til seint í gærkvöldi.
Ég held ég fari að draga úr mánudagsdrykkjunni og kannski fókusi á einhverja aðra daga...
Athugasemdir
Jahá... af titlinum að dæma, þá gæti þetta verið óbeint "svar" við blogfærslu minni frá því fyrr í dag.
Annars, þá veit ég núna að þú manst ekki bílnúmerið þitt.
Finn eitthvað annað til að skjóta á þig með næst ;)
Ásgeir (IP-tala skráð) 17.10.2007 kl. 22:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.