23.7.2007 | 23:08
Margur telur sig mig
Við lifum á hátækniöld, þar sem allt sem hugurinn girnist er í seilingarfjarlægð. Internetið má nýta sér á margvíslegan hátt, allt frá innkaupum og til afþreyingar. Á internetinu má allt, og leitir þú að einhverju sérstöku eru yfirgnæfandi líkur á því að það finnist. Áður en ég missi mig í að tala um hvað netið er stórt og mikið ætla ég bara að vinda mér í merg málsins.
Persónuþjófnaður er til í mörgum myndum, allt frá því að lífi manneskjunnar er stolið í heild sinni, með öllum bankareikningum og því sem þeim fylgir, og niður í að villa á sér heimildir. Nú hef ég notað internetið í fjöldamörg ár, bæði til samskipta og sem vettvang skoðanaskipta. Í gegn um tíðina hef ég oft heyrt útundan mér að það sé fólk á þessu blessaða landi sem segir sig mig þegar það á í samræðum við annað fólk. Svo óheppilega vildi bara til að sumir þeirra þekktu mig persónulega og vissu betur, þótt það hafi komið fyrir að ég hafi talað við sjálfan mig. Nú veit ég að ég er óumdeilanlega sláandi myndarlegur maður en hvað ætli fái fólk til þess að þykjast vera einhver annar?
Er lífið mitt svo fullkomið að aðrir vilja að sumir haldi að þeir séu ég, svo þeir séu öfundaðir? Eða eru hér á ferð óprúttnir nágungar sem vilja mér mein?
Mér stæði kannski fullkomlega á sama ef þetta hefði gerst einu sinni eða tvisvar, en í gegnum öll þessi ár sem ég hef nýtt mér kosti internetsins þá hefur þetta komið reglulega upp. Varla er ég einn um að hafa verið svo heppinn að hafa náð tali af sjálfum mér í gegn um tölvu? Er einhverjum treystandi?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.