12.7.2007 | 08:47
Tveir kaffi?
Það er eitthvað svo rangt við þessa spurningu sem ég var spurður á kaffihúsi í miðbænum nú um daginn. Tveir kaffi? Í fyrsta lagi, þá er kaffi hvorukyn, það kaffið. Í öðru lagi, ef svo ólíklega vildi til að stelpan hafi verið að meina tvo bolla af kaffi, og þess vegna notað karlkynið sem skískotun í bollann, þá er það samt rangt, því þá hefði hún sagt "Tvo kaffi?" eða, sem betra hefði verið "Tvo kaffibolla?". Það sem er svo rangt við þetta í leiðinni er að kaffi ætti auðvitað að vera í þolfalli, en ekki nefnifalli. Það er kannski erfitt að átta sig á því að kaffi sé í vitlausu falli, en það gefur auga leið að ef "tveir" er í nefnifalli, hlýtur kaffi að vera líka nefnifall.
En við fyrirgefum henni vankunnáttu sína í málfræði sökum málvenju, en samkvæmt gamla íslenskukennaranum mínum þá var það löggild afsökun. Hann mátti bjóða "Góðan daginn" sökum þess að það hefði skapað sér hefð í tungumálinu, þrátt fyrir að það væri málfræðilega vitlaust. Nú skora ég á alla að bjóða framvegis "góða nóttina"svo hægt sé að skapa fyrir því hefð. Einnig vil ég benda þágufallssýktum einstaklingum og/eða bæjarfélögum á það að auðvitað er í lagi að vera þágufallssjúkur, svo framarlega sem þið eruð að leggja ykkar af mörkum í að skapa málvenjur og hefðir í íslenskri tungu.
Athugasemdir
Fleirtalan af kaffi er auðvitað köff. Þannig að "tvö köff" hefði stúlkan auðvitað átt að segja.
G.J, 24.7.2007 kl. 17:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.