Langt um liðið

Benz blæjubíllinn á tónleikunum með Á móti sólÉg hef ekki bloggað lengi lengi lengi, en nú skal ég örlítið stikla á stóru um hvað hefur verið að ganga á.

Núna síðasta laugardag kom hópur til okkar frá HB Granda. Allt gekk upp svona í stærstum dráttum, kvöldið byrjaði að vísu ekki vel, því þegar við ætluðum að ríða út á móti rútunum þá bilaðist hesturinn og fleygði mér og Árna af baki. Það fór því þannig að ég haltraði í veg fyrir rútuna en tveir riðu í veg fyrir hana. Eymundur tók fremri rútuna trausta taki og kastaði bílstjóranum út og brunaði svo í burtu. Þá fór ég í seinni rútuna og tilkynnti það að við hefðum orðið að ræna annari rútunni. Ég lét svo rútuna sem ég tók keyra beint inn í reiðhöll þar sem ég sleppti fólkinu lausu. Svo fimm mínútum síðar kom hin rútan með þvílíkum látum að annað eins hefur varla heyrst. Dagskráin gekk vel og allir voru ánægðir með matinn, þjónustuna og ballið á eftir og má þetta því teljast sem vel heppnað kvöld, þrátt fyrir helvítis ótemjuna sem kastaði mér af baki.

Föstudaginn langa voru svo tónleikar hjá okkur með Magna og Á móti sól, þar sem þeir spiluðu fyrir nánast húsfylli. Það mættu tæplega 1000 manns og gekk allt stóráfallalaust fyrir sig. Við höfðum fengið lánaðan Benz blæjubíl sem við fylltum af klaka og notuðum síðan sem bar. Það féll í mjög góðan jarðveg og held ég að ég sé bara nokkuð sáttur við útkomuna.

Fyrir hálfum mánuði var svo hér hópur frá 365 miðlum. Þau voru í óvissuferð sem endaði hér með mat og balli sem gekk alveg stórkostlega. Þannig ég held ég sé bara þónokkuð sáttur við lífið og tilveruna í dag.

Það eina sem er að ég er svo stirður og haltur eftir hestbaksflogið að það er varla neinu lagi líkt. Nema þá kannski einhverju lélegu lagi frá ónefndri innlendri hljómsveit sem við skulum ekki ræða frekar.

Bið að heilsa í bili, sumarið er að fara að detta inn, og ég þyrfti að vera duglegri að blogga, en maður fær yfirleitt aldrei nákvæmlega það sem maður vill. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband