12.1.2007 | 15:25
Samkynhneigð - Eðlileg eða ekki?
Ég hef afskaplega gaman af því að ofureinfalda hlutina vegna þess að við eigum það til að gera úlfalda úr mýflugu úr svo mörgum málefnum. Og að vísu líka vegna þess að það fer í taugarnar á fólki. En sama hvað hver segir, þá er ofureinföldun á mörgum málefnum oft einfaldasta lausnin og ég hreinlega skil ekki af hverju allir geta ekki sæst á svona marga hluti.
Nú langar mig að taka dæmi. Fólk getur endalaust velt sér upp úr samkynhneigð. Það á að vera svakalega óeðlilegt að vera samkynhneigður einstaklingur og eins og staðan er í dag þarf enn að vera að berjast fyrir málefnum samkynhneigðra, eins og til dæmis með ættleiðingar, blóðgjafir og fleira. Við mismunum fólki sökum kynhneigðar þess, en hvers vegna gerum við það?
Nú er kynkvötin ein af frumþörfum mannskepnunnar. Auk þess höfum við nokkrar aðrar frumþarfir, en það er að sofa, borða og drekka.
Nú er afar breytilegt hvenær við sofum. Sumir vilja sofa lengi á morgnana, aðrir vilja vaka allar nætur og sofa á daginn, einhverjir eru svakalega morgunhressir á meðan fólk eins og ég er fyrst að komast í gang í kring um hádegi. Fólki virðist almennt vera sama um svefnvenjur annara, þetta er jú ein af frumþörfum okkar og það gera þetta allir. Bara misjafnt hvenær, hvernig og hversu lengi.
Við verðum líka að drekka, til að koma í veg fyrir að við deyjum. En hvað við drekkum veltur alfarið á okkur. Við getum drukkið vatn, kaffi, mjólk, kók, jafnvel bjór. Það þykir ekkert óeðlilegt að fá sér kaffibolla á morgnana, eða á kvöldin, jafnvel um miðjan dag. Öll þurfum við að drekka og svona felstum er alveg sama hvað næsti maður er að drekka til að halda lífi, við drekkum eitthvað öll.
Við verðum öll að borða, af sömu ástæðu. Matur kemur í veg fyrir að við deyjum úr hungri. Öll höfum við misjafnan smekk á mat. Ég, til dæmis, borða ekki grænmeti og hef aldrei gert. Það þykja mörgum furðulegt, en enginn kippir sér upp við þetta. Ef ég kýs að borða ekki grænmeti, þá er það mitt val og flestir eru tilbúnir til að sætta sig við það. Þetta hefði þótt afar óeðlilegt í gamla daga, þegar við áttum varla ofan í okkur, þá hefði maður borðað það sem manni væri rétt. En í dag, þá getum við flest leyft okkur að velja hvað við borðum og hvenær. Það sem mér finnst gott, finnst kannski nágranna mínum hreinn viðbjóður, en við lifum í sátt og samlyndi á meðan ég er ekki að bjóða honum í mat.
Þá komum við að kynkvötinni, sem er eins og allt hér fyrir ofan, frumþörf. Það er mismunandi hvað hver kýs. Sumir strákar vilja hávaxnar stelpur, aðrir strákar vilja lágvaxnar, sumir vilja feitar á meðan aðrir vilja grannar. Okkur þykir fullkomlega eðlilegt að fólk fái að velja hvernig það svalar þessari þörf sjálft, á meðan það velur ekki aðila af sama kyni. En hvers vegna erum við að hengja okkur á eina frumþörf og reyna að búa til einhverja reglu í sambandi við hana, á meðan allar aðrar frumþarfir má svala á þann hátt sem hver og einn kýs að gera? Af hverju þykir eðlilegt að borða skötu á Þorláksmessu á meðan það þykir óeðlilegt að heillast af aðila af sama kyni?
Ókei, nýtt dæmi. Nú eru jólin ný afstaðin. Við erum búin að sprengja flugelda og kveikja í jólatrjám því til staðfestingar. Heima hjá mér er alltaf hamborgahryggur á jólunum. Heima hjá flestum sem ég þekki er alltaf hamborgahryggur á jólunum. Fyrir mér er hamborgahryggur á jólunum eina leiðin til að halda jól, en það er til geðsjúkt fólk sem vill borða rjúpur um jólin! Mér finnst rjúpur ógeðslegar og þá skiptir ekki máli þótt þetta fólk borði bara rjúpur heima hjá sér. Ónei, ef ég fengi að ráða þá væru hjónabönd milli einstaklinga sem borða rjúpur á jólunum bönnuð! Því næst myndi ég banna þeim að eignast börn, ég óska engu barni að alast upp hjá fólki sem borðar rjúpur á jólunum. Því næst myndi ég fá Gunnar í Krossinum til að halda sérstök afrjúpunarnámskeið, þar sem fólk sem borðar rjúpur á jólunum, getur komið og séð villu síns vegar og fært sig yfir á réttu brautina.
Nei, í alvöru, spáið bara aðeins í þessu. Þetta er ekkert flókið, af hverju verðum við að flækja allt svona?
Athugasemdir
Það er alveg rétt hjá þér Sverrir að þessi mál þurfa alls ekki að vera flókin og í tilefni af því er ég með smá spurningu fyrir þig. Landlæknisembættið hefur unnið að því að fræða börn og unglinga "um þá hættu sem stafar af afbrigðilegu kynlífi, svo sem endaþarmsmökum. Í nefndinni sitja meðal annars fulltrúar frá Heimili og skóla, Barnaheillum, prestum, skólakerfinu, umboðsmanni barna, læknanemum í HÍ og Barnaverndarstofu," svo vitnað sé beint í Fréttablaðið 7. janúar 2006. Munnmök eru annað sem þessir aðilar hafa varað börn og unglinga við.
Fyrir læknavísindunum er alveg ljóst að endaþarmurinn er aðeins hugsaður til einnar notkunar og annarrar ekki, vöðvarnir á þeim stað sýna það og sanna. Betur má m.a. lesa um þetta í frétt Fréttablaðsinsþar sem m.a. er rætt við fulltrúa Landlæknisembættisins. Þannig að mín spurning er sú hvernig samkynhneigð sem kynhneigð getur talizt eðlileg ef samkynhneigt kynlíf telst afbrigðilegt, þ.e. óeðlilegt?
Spyr sá sem ekki veit.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.1.2007 kl. 15:51
góður pistill, en skrítin athugasemd. og spurningin í athugasemdinni er beinlínis út í hött! samkynheingt kynlíf FELST ekki í endaþarmsmökum? þó að sumir kjósi það - en það gera líka margir sem lifa gagnkynhneigðu kynlífi. Þarna tel ég að fáfræði um samkynhneigð sé um að kenna, og reyndar bara almennt um kynlíf! Það er algjörlega eðlilegt að börn og unglingar séu varaðir við að "drífa" sig í ýmis konar kynlífsreynslu, þ.m.t. endaþarmsmök. En það er engin ein "ríkisleið" sem er sú eina rétta, hvorki varðandi kynlíf eða matseld á jólum - þar sem ég er ein af þeim sem vil borða rjúpur á jólunum - finnst hamborgarhryggur ekki hátíðismatur - en ágætis sunnudagsmatur :)
BB (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 16:57
Ég er ekki læknir, og get þar af leiðandi ekki svarað spurningu þinni fullkomlega. Það er rétt sem kemur fram í síðustu athugasemd að samkynhneigt kynlíf felist ekki endilega í endaþarmsmökum. Ef svo væri myndi ég slá því fram að lesbíur gætu hreinlega ekki stundað kynlíf.
En að spurningunni sjálfri. Í nútíma samfélagi höfum við leyft okkur að beygja ákveðnar hefðir sem skapast hafa í aldanna rás. Hér á árum áður þótti ekki eðlilegt að konur væru útivinnandi, eða hefðu álit á stjórnmálum. Konur þurftu að berjast fyrir rétti sínum til að fá að kjósa, sem í dag hefur verið bundið í stjórnarskrá okkar.
Það að segja að kynlíf milli tveggja einstaklinga af sama kyni sé óeðlilegt, vegna læknavísinda, þykir mér ekki sanngjörn staðhæfing, vegna þess að hingað til hafa læknavísindin ekki geta útskýrt tilveru samkynhneigðra sem slíka. Betra hefði verið ef þú hefðir spurt hvers vegna samkynhneigð væri til staðar yfir höfuð, þar sem læknavísindin hafa ekki svarað þeirri spurningu svo vel megi una.
Sverrir Garðarsson, 12.1.2007 kl. 17:20
Gott og vel. Og hvernig er þá samkynhneigt kynlíf ef ég er að misskilja málið? Ýmsir gagnkynhneigðir stunda vissulega það kynlíf sem hér er um að ræða en sá munur er þó á að þeir geta saman stundað, tja, hefðbundnara kynlíf ef svo má að orði komast. Hinir geta það eðli málsins samkvæmt ekki.
Annars var ekki verið að vara börn og unglinga við því að drífa sig í eitt eða neitt heldur bara við því að stunda kynlíf sem þetta yfir höfuð. Lesa má meira um þetta í Fréttablaðinu 7. janúar 2006 sem nálgast má á PDF-formi á Vísi.is (sjá tengil hér að ofan).
Það er enginn að tala um einhverja ríkisleið í þessu sambandi eða neitt slíkt heldur einfaldlega það hvað getur talizt eðlilegt og hvað ekki, en ljóst er að m.a. Landlæknisembættið, Heimili og skóli, Barnaheill, skólakerfið, umboðsmaður barna, Barnaverndarstofa o.fl. aðilar telja endaþarmsmök og munnmök afbrigðileg, þ.e. óeðlileg.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.1.2007 kl. 17:27
Eftir að hafa lesið greinina sem þú bendir á skil ég síður viðhorf þitt til málsins. Ég fæ það á tilfinninguna við lestur greinarinnar að um sé að ræða forvarnir almennt, en ekki atlögu gagnvart lifnaðarhætti samkynhneigðra. Mér þykir fullkomlega eðlilegt að fræða börn og unglinga um kynlíf, þó er ég ekki sáttur við að athæfið flokkist undir "afbrigðilegt kynlíf".
Aftur vil ég vísa í svar mitt að ofan í sambandi hvað þykir eðlilegt hverju sinni. Eins og ég benti á þar þótti óeðlilegt að konur væru útivinnandi, en með viðhorfsbreytingu var málið leyst.
Þá er það bara spurningin, kalla mál samkynhneigðra á viðhorfsbreytingu, eða á þetta bara að teljast óeðlilegt áfram? Hvað viljum við þá segja við þau 10% þjóðarinnar sem eru óeðlileg að þessu leyti?
Sverrir Garðarsson, 12.1.2007 kl. 18:05
Enn hefur ekki fengist svar við því hvernig samkynhneigt kynlíf sé ef ekki er um að ræða endaþarmsmök og/eða munnmök, en klárlega er verið að vara við slíku kynlífi yfir höfuð í fréttinni, enda væri það annars varla skilgreint sem afbrigðilegt.
Ég leyfi mér annars að fullyrða að kynlíf, kynhneigð, kynferði eða annað slíkt væri ekki til hjá mannskepnunni ef ekki væri fyrir einn ákveðinn náttúrulegan tilgang. Að fjölga tegundinni. Sá unaður sem kynlífi fylgir er aðeins til þess ætlaður að stuðla að því að þetta takmark náist.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.1.2007 kl. 18:30
Samkynhneigt kynlíf inniheldur augljóslega endaþarms- og/eða munnmök, en er ekki eingöngu byggt á því.
Vissulega er kynlíf unaðslegt og í flestum tilfellum ætlaður til að stuðla að viðhaldi stofnsins. En er þá bannað að stunda kynlíf ef ekki í þeim tilgangi?
Aftur að efnistökum greinarinnar. Við borðum til að halda lífi, góður matur er því vissulega til að stuðla að því að við borðum hann, með það að markmiði að lifa lengur. Þrátt fyrir það er til góður matur sem er ekki beint heilsusamlegur, en við freistumst samt til að borða hann. Er það þá ekki óeðlilegt?
Sverrir Garðarsson, 12.1.2007 kl. 18:37
Ok, þá ertu s.s. ósammála BB hér á undan sem sagði að samkynhneigt kynlíf fælist ekki í endaþarmsmökum. Gott og vel. Ok, hverju öðru er samkynhneigt kynlíf byggt á?
Kynlíf er frá náttúrunnar hendi augljóslega aðeins ætlað til að viðhalda stofninum. Þess vegna eru við án efa félagsverur og höfum þörf fyrir að eiga náið samband við annan einstakling. Allt miðar þetta augljóslega að því sama.
Allur matur er án efa góður fyrir okkur á einhvern hátt, enda geri ég ráð fyrir að við fáum t.d. orku úr öllum mat, þó ekki nema bara það, og uppfylli þannig náttúrulegan tilgang þess að matast. Því má kannski segja að matur sé misgóður fyrir okkur. Allt er hins vegar gott í hófi og vissulega má gera ráð fyrir að eitthvað sem við látum ofan í okkur í dag hafi e.t.v. ekki verið ætlað til þess. Hins vegar er alveg sama hvernig á það er litið að tveir karlmenn eða tvær konur geta ekki eignast afkvæmi, nema þá auðvitað með utanaðkomandi aðstoð.
Að benda á eitthvað annað sem er hugsanlega ekki eðlilegt til að réttlæta annað slíkt teljast annars yfirleitt ekki sterk rök.
Að lokum er enginn að tala um að banna eitt eða neitt. Ekki er ég talsmaður slíks, því fer fjarri. En ég er hins vegar ekki hlynntur því að hlutunum sé snúið á haus og því haldið fram að eitthvað sé eðlilegt sem er það augljóslega ekki til að þjóna einhverjum félagslegum rétttrúnaði.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.1.2007 kl. 19:33
Því má annars bæta við að ætlunin er ekki að vera leiðinlegur við einn eða neinn eða neitt slíkt. Ég ákvað ekki að hlutirnir væru svona, en ég get einfaldlega ekki samþykkt að eitthvað sem augljóslega er óeðlilegt sé eðlilegt. Ég vil að það sé ríkur skilningur í þjóðfélaginu á því að innan þess sé fólk sem er samkynhneigt og geti lítið að því gert. Ég hef að sama skapi ekki hug á að skipta mér að því hvað gerist í svefnherbergjum fólks, enda kemur mér það ekki við. En ég tel mig í fullum rétti til að hafa skoðun á samkynhneigð (ath. kynhneigðinni, ekki fólkinu sem slíku) og þeirri opinberu kröfu að allir samþykki þá skoðun að samkynhneigð sé eðlileg og að ekki megi hafa aðra skoðun á því máli. Slík krafa, sem sett er fram leynt og ljóst, finnst mér lítið eiga skilt við nokkuð sem kallast getur lýðræði.
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.1.2007 kl. 19:45
Hjörtur minn, mér finnst þú alls ekki leiðinlegur þó svo að þú hafir ekki sömu skoðanir og ég. Þrátt fyrir að við séum ósammála þarf ekki að þýða að við séum hér með orðnir einhverjir óvinir. Þvert á móti, ég fagna því að þú látir í ljós skoðanir þínar, hverjar svo sem þær megi vera.
En gæti verið Hjörtur, að samkynhneigð sé komin af náttúrunnar hendi, til að koma í veg fyrir óhóflega fólksfjölgun?
Ég ætlast alls ekki til að skoðanir mínar verða settar í lög (þrátt fyrir að Ísland yrði eflaust útópía ef slíkt myndi gerast ;) en ég vil þrátt fyrir það halda þeim möguleika opnum að samkynhneigð sé eðlilegur þáttur í mannflórunni, og þykir mér sú krafa að hætt verði að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar þess ekki óeðlileg.
En þér er guðvelkomið að vera ósammála mér í því, sem öðru
Sverrir Garðarsson, 12.1.2007 kl. 20:05
Takk fyrir það. Það er tilbreyting vissulega að geta rætt þessi mál og lýst skoðunum sínum á málefnalegan hátt. Tek undir með þér með það að við þurfum ekkert að vera einhverjir óvinir þó við séum ekki sammála um eitthvað ;)
Ég hef verið spurður að þessu með fólksfjölgunina áður, en sú tilgáta stenzt varla sögulega skoðun þar sem samkynhneigð hefur a.m.k. þekkst síðan á tímum Forn-Grikkja og ég veit ekki til þess að neitt fólksfjölgunarvandamál hafi verið til staðar á jörðinni á þeim tíma. Það er vitaskuld tiltölulega nýtt vandamál, varla meira en í mesta lagi aldargamalt.
Varðandi það að fólki sé mismunað á grundvelli kynhneigðar þá tel ég að grundvallaratriðið í því sambandi hljóti að vera hvort hægt sé að segja að bæði samkynhneigð og gagnkynhneigð séu eðlilegar. Ef ekki er þetta tvennt einfaldlega ekki sambærilegt og ekki hægt að segja að það sama eigi þ.a.l. að gilda um það.
Ég var annars alls ekki að saka þig um einhverja félagslega rétthugsun heldur þá sem er mjög ríkjandi í allri umræðu um þessi mál í þjóðfélaginu. Ef einhver vogar sér að lýsa þeirri skoðun sinni að samkynhneigð sé óeðlileg eða að gagnrýna málflutning Samtakanna 78 eða annarra aðila á þeirra bylgjulengd þá á sá hinn sami á hættu að vera úthrópaður sem hommahatari eða eitthvað þaðan af verra, algerlega án þess að þau rök, sem hann hugsanlega hefur fram að færa, séu tekin til nokkurrar málefnalegrar skoðunar. Þú ert augljóslega ekki í þeim hópi og fagna ég því og sömuleiðis að þú tjáir þínar skoðanir á þessum málum. Skoðanafrelsi okkar er það sama þó skoðanirnar kunni að vera ólíkar :)
Hjörtur J. Guðmundsson, 12.1.2007 kl. 21:24
þið eruð báðir skemmtilegir pennar og langskemmtilegast er einmitt að skiptast á skoðunum þegar allir eru til í að ræða hlutina út frá mismunandi sjónarhornum, en ekki verið að troða sínum skoðunum upp á og upp í aðra :)
en hvað er eðlilegt og hvað er ekki eðlilegt? Kynhneigð er eðlileg. og ein af frumþörfum okkar. þá finnst mér engu skipta hvort hneigst er að sama kyni eða gagnstæðu. Varðandi kynlíf samkynhneigðra þá er það því miður alltof oft tilhneigingin í almennri umræðu fólks um samkynhneigð að vaða beint inn í svefnherbergi þeirra! Hommar og lesbíur eru bara eins og annað fólk, það laðast að einhverjum einstaklingi og líður vel með honum og vill eyða með honum lífinu. og stunda kynlíf með þeim einstaklingi. Ég ætla ekki að fullyrða að ég sé betur að mér í kynlífi samkynhneigðra en þið, en veit þó að kynlíf þeirra er eins misjafnt og gagnkynhneigðra. En það byggist upp á afar svipaðan hátt... á kossum, snertingu, gælum, unaði og fullnægju. Endaþarmsmök homma eru ekki endilega algengari en munnmök þeirra. Lesbíurnar stunda ekki bara munnmök, þær hafa fingur sem duga ágætlega, og sumar eiga áspennibúnað fyrir það sem á vantar. Nóg um það.
Kynlíf gagnkynhneigðra er nú líka mis "eðlilegt". hvað með þá sem vilja sársauka, valdnotkun eða valdbeitingu í sínu kynlífi? Fyrir mér er að alls ekki eðlilegt sem hluti af kynlífi og á ekkert erindi í náin samskipti fólks. En það er bara mín skoðun.
En er samkynhneigðin sjálf ekki eðlileg af því að kynlíf þeirra er ekki eðlilegt? ekki hefðbundið? þe að ekki geta farið fram samfarir í þeirri merkingu þess orðs? Hver hefur skilgreint hefðbundið kynlíf? og hver á að gera það? treystið þið ykkur til þess? hvernig er hefðbundið kynlíf? Og "má" þá bara stunda hefðbundið kynlíf? hver myndi fylgjast með því? væru viðurlög fyrir að stunda eitthvað annað en það hefðbundna?
Ég er ekki sammála ykkur með að kynlíf sé frá náttúrunnar hendi augljóslega aðeins ætlað til að viðhalda stofninum. Þá held ég að getnaðir væru mun algengari/auðveldari. vitið þið að það er mínútu og jafnvel sekúndu spursmál hvort getnaður tekst eða ekki? og þá tekur við flókið þroskaferli fósturs, sem oft stöðvast á frumustigi, þar sem frumuklasinn visnar og deyr og konan veit ekki einu sinni að getnaður hefur orðið? Nei, okkur er ætlað að njóta alls konar lystisemda lífsins, í mat og drykk og skemmtun og unaði þess að njóta annarrar manneskju, án þess að markmiðið sé fjölgun.
Varðandi það að viðhalda tegundinni er að mörgu að hyggja; sífellt fleiri pör eiga við ófrjósemi að etja í dag, hvað með þeirra kynlíf? er það þá óeðlilegt? tilgangslaust? þau geta ekki viðhaldið stofninum, ekki getið af sér afkvæmi nema með utanaðkomandi aðstoð? hvað með konur sem fæðast án legs? er þeim þá ekki ætlað neitt kynlíf?
Mín skoðun er sú að kynhneigð sé eðlileg. punktur.
Góða nótt :)
BB (IP-tala skráð) 13.1.2007 kl. 01:37
Gagnkynhneigt fólk sem á einhvern hátt getur ekki eignast börn saman án utanaðkomandi aðstoðar getur það allajafna ekki vegna þess að það er eitthvað að. Eitthvað er ekki eins og það á að vera hvort sem það er ófrjósemi eða eitthvað annað. Það geta sennilega flestir fallizt á enda segir það sig væntanlega sjálft. Samkynhneigðir geta ekki heldur eignast börn "saman" án utanaðkomandi aðstoðar sem væntanlega þýðir að það er eitthvað að þar á bæ líka sem hindrar það.
Það er einfaldlega ekki hægt að leggja samkynhneigð og gagnlynhneigð að jöfnu án þess að einmitt að láta eins og það skipti bara engu máli hvort viðkomandi einstaklingar geti eignast börn saman eða ekki. Engu að síður er það grundvallaratriðið í þessu sambandi og það sem sker úr um það hvort viðkomandi kynhneigð uppfyllir náttúrulegan tilgang kynlífs, sem augljóslega er aðeins einn eða í það minnsta fyrst og fremst einn, eða ekki og getur því talizt eðlilegt (hefðbundið er óheppilegt orð í þessu sambandi).
Hjörtur J. Guðmundsson, 13.1.2007 kl. 09:30
Það er ótrúlegt hvað hægt er að koma af stað með orðum.
Andskotin er þetta? Mér þykir mjög líklegt að þegar krakkar byrja að ganga til prests þá ákveði þau að í ritualinu þegar þau fermast: ég ætla að verða samkynhneigður þegar ég verð stór!
Ég verð alltaf svolítið reiður þegar ég hlusta á ,,mótbárur" eða skoðanir mis vitra mann s.s. Hjartar.
Hvers vega? Jú minn kæri Hjörtur. Það biður enginn um að verða samkynhneigður og leyfi mér að halda þeirri skoðun fram að ef valið væri fyrir hendi og raunverulegt þá myndi stærstur hluti þessa fólks sem er samkynhneigt velja að vera gagnkynhneigt og falla inní þjóðfélagið og fara eftir þeim kröfum sem það setur. Þó mér finnist reyndar þjóðfélagið ákveða of mikið hvað hver á að gera og hvað hver á að vera, og þegar einhver gerir eitthvað sem er ekki alveg eins og ,,þjóðfélaginu" þ.e.a.s. þessum þröngsýnu og þveru mislíkar eru viðkomandi nánast teknir af lífi.
Hafa menn eins og Hjörtur hugleitt hve margir samkynhneigðir einstaklingar taka eigið líf. Af hverju gerir þetta fólk það? Jú! Sleggjudómar, fáfræðsla og þröngsýni þjóðfélagsins, jafnvel foreldrar og vinir afneita þeim sem kjósa að lifa samkvæmt eðli sínu og þegar ekkert er eftir nema þessir sleggjudómar sem byggðir eru á fáfræðslu á viðkomandi ekki annarra kosta völ en að láta sig hverfa úr þessum heimi og á vit betri líðanar.
Hvað hefur kirkjan gert? Jú, margir kirkjunnar þjónar fordæma samkynhneigða og enn og aftur hafnar ,,þjóðfélagið" við komandi. Ég vil minna á að samkynhneigðir greiða skatt og skyldur (barnabætur,leikskólar,skólar,kirkjan o.mf. ) sem samkynhneigður maður jafnvel nýtir sér ekki þar sem honum er neitað um að t.d. ættleiða börn. Hafa menn hugleitt hve margir samkynhneigðir eru vel í stakk búnir til að gefa litlu lífi hamingju, ást og hvatningu og geta (vilja en fá ekki) styðja börn til betra lífs. Jú, jú segja sumir en hommar geta ekki alið upp börn því þá verða börnin hommar. Þvílíkt kjaftæði og bull. EF AÐ UNG KONA EIGNAST BARAN UTAN SAMBÚÐAR EÐA HJÓNABANDS, er þá sjálfgefið að barnið eignist einstæða einstaklinga sem eignast barn fyrir sambúð eða giftingu.
Ég segi við ykkur sem lesið þessa umræðu: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Eymundur Arilíus Gunnarsson, 20.1.2007 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.